Copy
Þriðjudagspósturinn er upplýsingapóstur Skátamiðstöðvarinnar, sendur út alla þriðjudaga á skáta 18 ára og eldri skv. félagatali BÍS.
Ef þið viljið koma einhverju á framfæri í þessum pósti þá endilega sendið okkur línu á skatar@skatar.is
Friend of Facebook

3. desember 2013

Nýr þriðjudagspóstur

Eins og allir væntanlega sjá þá er ný útgáfa af þriðjudagspóstinum komin í loftið. Við vonum að hún mælist vel fyrir og auðveldi ykkur öllum yfirsýn. Endilega sendið okkur ábendingar ef ykkur finnst eitthvað vanta eða einhverju er ofaukið. 
Einnig minnum við á að allir hafa tækifæri til að koma efni að í þriðjudagspóstinn með því að senda okkur stuttar greinar fyrir hádegi á mánudegi á skatar@skatar.is

Kveðja, Dagga

Dagur sjálfboðaliðans 5. desember

Dagurinn er opinberlega viðkenndur af Sameinuðu þjóðunum sem dagur þar sem sjálfboðaliðar um allan heim eru viðurkenndir og fagnað fyrir framlag þeirra og skuldbindingu.
Stjórn BÍS vill nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim sem lagt hafa sitt lóð á vogaskálarnar, á liðnum árum, til þess að okkur sé unnt að bjóða fleira ungu fólki betra skátastarf.


Kveðja, Stjórn BÍS
Komdu með „Á norðurslóð“

Dróttskátum býðst frábært tækifæri á að taka þátt á milli jóla og nýárs í viðburði sem hefur fest sig vel í sessi „ á norðurslóðum“.  Á NORÐURSLÓÐUM er vetrarviðburður á milli jóla og nýárs þar sem dróttskátar koma saman við Úlfljótsvatn, tryllast í snjónum, snúa á veðurguðina með því að kappklæða sig í hlýjar dúnúlpur, eða bara taka lífinu með ró, með spilastokk og gítarinn í hönd.  Skráning og nánari upplýsingar á www.skatar.is


Kveðja, Jón Ingvar
Við framlengjum skráningarafslátt út vikuna

Vegna vandræða með skráningu á Landsmót skáta um helgina hefur verið ákveðið að framlengja tilboðið um 5000 kr skráningarafslátt til og með 8. desember.


Kveðja, Landsmótsteymið
Bílvelta undir Ingólfsfjalli

Starfsmaður Úlfljótsvatns varð fyrir því óhappi að velta bifreið staðarins undir Ingólfsfjalli í gær. Til að koma í veg fyrir allar sögusagnir þá slapp ökumaðurinn heill úr út þessu ævintýri. Aðstæður voru slæmar, flughált og mikið rok og endaði ferðin með því að bíllinn endaði út af og lagðist á þakið. Þetta kennir okkur að það að það er aldrei of varlega farið í umferðinni. Við sendum stuðboltunum fyrir austan batakveðjur. Fall er fararheill.

Kveðja, Hermann.

Jólaskemmtun Skátakórsins!
 
Jólaskemmtun Skátakórsins verður haldin í Hraunbyrgi sunnudaginn 8 desember kl.15.00
Kórinn syngur nokkur jólalög af sinni alkunnu snilld og svo verður dansað kringum jólatréð.
Kaffihlaðborð að hætti kórsins og auðvitað mætir jólasveinninn og gefur krökkum glaðning.
Aðgangseyrir 500kr fyrir allan aldur.
 
Jólakveðja, Skátakórinn

Gilwell-leiðtogaþjálfun (1. skref af 5)

Laugardaginn 18. janúar 2014 í Skátamiðstöðinni frá Kl: 09:00 - 17:00

Hvað er það sem gerir skátastarf að skemmtilegu ævintýri með skýr uppeldismarkmið? Hvernig fer það starf fram? Starfsgrunnur skáta er fyrsta skrefið í Gilwell-leiðtogaþjálfun.
Fullorðnir sjálfboðaliðar með góða leiðtogahæfni eru kjölfestan í skátastarfi. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur færni fyrirþetta mikilvæga hlutverk. Þar öðlastu þekkingu og færni til að leiða starfið á þeim fjölbreytta vettvangi sem skátastarf er. Gilwell-leiðtogaþjálfun eykur sjálfstraust og nýtist vel í atvinnulífinu.

Skráning fer fram hér.

Upplýsingar veitir Dagga í Skátamiðstöðinni í síma 550-9800

Kveðja, Gilwellteymið

Styrktarpinni skáta 

Hugmyndin á bak við Styrktarpinna skáta er tvíþætt. Í fyrsta lagi er um fjáröflun fyrir skátahreyfinguna að ræða og í öðru lagi er verið að tengja stóran hóp eldri skáta við skátahreyfinguna með því að senda honum árlega Styrktarpinnann.
Verið er að ganga frá styrktarpinnanum til útsendingar og fer hann í póst í vikunni. 


Friðarloginn frá Betlehem 

Friðarloginn kom til Íslands í fyrsta skipti þann 19. desember 2001. Skátar, St. Georgsgildi skáta og björgunarsveitir veittu Friðarloganum móttöku og sáu um að dreifa honum um landið. Síðan þá hefur Friðarloginn lifað óslitið í St. Jósefskirkju í Hafnarfirði.

Dreifing Friðarlogans um landið hefst formlega fyrsta sunnudag í aðventu árlega. Almenningi gefst víða kostur á að nálgast Friðarlogann, t.d. til að fara með hann heim og láta loga yfir hátíðirnar, eða setja á leiði ástvina sinna. Frá aðventunni er friðarloginn ávallt logandi í Skátamiðstöðinni Hraunbæ 123 í Reykjavík. Þar má einnig upplýsingar um hvar unnt er að nálgast Friðarlogann.

  

Í þessari viku:

  • Snjallráð vikunnar
  • Nýr þriðjudagspóstur
  • Dagur sjálfboðaliðans
  • Komdu með "Á norðurslóð"
  • Framlengdur skráningarafsláttur
  • Bílvelta undir Ingólfsfjalli
  • Jólaskemmtun Skátakórsins
  • Gilwell-leiðtogaþjálfun 1.skref af 5
  • Styrktarpinni skáta
  • Friðarloginn frá Betlehem

 

Á dagskránni:

5/12
Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliðans

8/12
Jólaskemmtun Skátakórsins

9/12
Endurfundir skáta - Jólafundur

27/12-29/12
Á Norðurslóðum - viðburður fyrir dróttskáta á Úlfljótsvatni

 

Snjallráð vikunnar

"Ef það vantar nammi, þá kaupum við nammi."

Þetta snjallráð er í boði Hermanns.


 
Bandalag íslenskra skáta,