Copy
3. tbl. 2016
Heilir og sælir ágætu félagar

Nýtt skólaár fer af stað með töluverðri umræðu um fjárhagstöðu skólanna, sérstaklega í Reykjavík. Fram kom á formannafundi svæðafélaga með stjórn SÍ, 2. september síðastliðinn, að sum sveitarfélög hafa forgangsraðað í þágu skólanna en víða væri þröngt í búi, bæði í fjölmennari sem fámennari sveitarfélögum. 

Stjórn og formenn svæðafélaga SÍ sendu frá sér ályktun að loknum fundi þar sem lýst var þungum áhyggjum af fjárhagsstöðu grunnskólanna í landinu sem geti leitt til skerðingar á lögbundinni þjónustu. Einnig kom fram sú krafa skólastjórnenda að þeim verði gert kleift að sinna lögbundinni þjónustu sem lúti að því að efla faglegt skólastarf með hagsmuni nemenda að leiðarljósi. 

Þá eru kjarasamningaviðræður SNS og FG í biðstöðu þar sem félagsmenn FG hafa fellt nýjan kjarasamning í tvígang. Það má því búast við töluverðri umræðu og óvissu um kjaramál kennara nú á haustdögum. Innleiðing aðalnámskrár, læsisstefnu og námsmats eru einnig umsvifamiklir þættir sem vinna þarf að.

Verkefni þessa vetrar samhliða daglegum rekstri eru og verða því töluverð hjá skólastjórnendum sem þurfa að halda áfram að „sigla skútunni“ í sátt og samvinnu við alla aðila skólasamfélagsins. Mikilvægt er að skólastjórnendur hugi að sjálfum sér þegar umsvifin verða mikil og leiti leiða til að efla sig í starfi. Starfsþróun, jafningjafræðsla, samvinna, handleiðsla og stuðningur skipta hér miklu máli. Ekki vanmeta þann tíma sem þið notið til styrkja og efla ykkur í starfi, hann skilar sér. Gangi ykkur vel.
Með kveðju, 
Svanhildur
 

Nýtt lífeyriskerfi og jöfnun launa

Samkomulag milli KÍ, BSRB og BHM annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar um nýtt lífeyriskerfi var undirritað á mánudag.Í nýju lífeyriskerfi felst að núverandi lífeyrisréttindi félagsmanna eru tryggð.

Lífeyriskerfi opinberra starfsmanna hefur verið fullfjármagnað og verður hér eftir sjálfbært. Í þeim tilgangi leggja ríki og sveitarfélög samtals um 120 milljarða króna í sérstaka lífeyrisaukasjóði auk fjármuna í svonefndan varúðarsjóð. Ennfremur hafa ríki og sveitarfélög skuldbundið sig til að leiðrétta launamun á milli opinbera markaðarins og hins almenna.

Með samkomulaginu er stigið stórt skref í þá átt að allt launafólk í landinu mun í framtíðinni njóta sambærilegra lífeyrisréttinda hvort sem það starfar á opinberum eða almennum vinnumarkaði. Verði nauðsynlegar lagabreytingar samþykktar á Alþingi í haust gengur nýtt lífeyriskerfi í gildi 1. janúar 2017. 
Sjá frétt á vef KÍ.  og grein formanns KÍ. 
Svanhildur María Ólafsdóttir, formaður SÍ, er komin aftur til starfa í Kennarahúsi. Kristinn Breiðfjörð, sem gegnt hefur störfum í fjarveru Svanhildar mun hætta um næstu mánaðamót. SÍ þakkar Kristni vel unnin störf í þágu félagsins og óskar honum velfarnaðar. 

Námstefna og ársfundur í Hofi á Akureyri

Skólastjórafélagið efnir til námstefnu undir yfirskriftinni „Menntun er til framtíðar og faglegt sjálfstæði“ föstudaginn 14. október næstkomandi. Daginn eftir, laugardaginn 15. október, verður ársfundur Skólastjórafélagsins haldinn. Námstefnan verður haldin í menningarhúsinu Hofi á Akureyri og ársfundurinn í Brekkuskóla. 

Dagskrá námstefnunnar er afar áhugaverð en aðalfyrirlesarar verða þau dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ, dr. Berglind Rós Magnúsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Hí, og Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild Háskólans á Akureyri. 

Að venju verður blásið til árshátiðar að lokinni námstefnu og verður hún haldin á Hótel KEA föstudagskvöldið 14. október. Upplýsingar um verð og skráningu. 

 

David Frost aðalafyrirlesari á Skólamálaþingi KÍ


Skólamálaráð Kennarasambands Íslands efnir til Skólamálaþings á Alþjóðadegi kennara, miðvikudaginn 5. október 2016. Þingið, sem verður haldið á Hótel Nordica og stendur frá 13 til 16, er ætlað félagsfólki KÍ, aðilum sem tengjast skólastarfi og þeim sem mennta kennara. 

Aðalfyrirlesari er dr. David Frost, prófessor við Menntavísindastofnun Háskólans í Cambridge, Englandi. Rannsóknir dr. Frost fjalla um margvísleg svið menntafræðilegrar forystu og kennslufræði en að undanförnu hefur hann lagt sérstaka áherslu á faglega forystu kennara. Á síðustu 30 árum hefur hann þróað aðferðir til að styðja við kennara sem breytingaafl í skóla- og menntamálum og þátttakendur í því að skapa og miðla faglegri þekkingu.

Nánar um dagskrá þingsins. 
 
Við hvetjum skólastjórnendur til að halda upp á Alþjóðadag kennara, 5. október næstkomandi, með einhverjum hætti. Markmið Alþjóðadags kennara, sem haldinn hefur verið hátíðlegur um heim allan síðan 1994, er að vekja athygli á hinu mikilvæga starfi skólans og kennara á degi hverjum. Það er kjörið að efna til viðburða, hafa opið hús og hylla kennara með einum eða öðrum hætti. Myllumerkið er #kennaradagurinn og um að gera að láta vita af skemmtilegum viðburðum á Facebook og Twitter. SKÓLASTJÓRAFÉLAG ÍSLANDS

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
www.ki.is / ki@ki.is

© 2016 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Ábyrgðarmaður: Svanhildur María Ólafsdóttir, svanhildur@ki.is


Þú ert skráð/ur á póstlista KÍ
Uppfæra skráningu eða Afskrá mig af póstlista