Copy
4. tbl. 2016
Heilir og sælir ágætu félagsmenn!

Kærar þakkir fyrir góða þátttöku, faglega samræðu og skemmtilega nærveru á námstefnu og ársfundi SÍ, sem fram fór dagana 14. til 15. október síðastliðinn. 
   
Góð mæting var bæði á námstefnu og ársfund. Þátttakendur voru ánægðir með meginfyrirlesara, málstofur, menntabúðir, jafningjafræðslu og umræðuhópa. Meginþema námstefnunnar var „menntun til framtíðar og faglegt sjálfstæði“.  
Dr. Jón Torfi Jónasson, prófessor við Menntavísindasvið HÍ, fjallaði um hvernig við tengjum saman skólastarf og pælingar um framtíðina? 

Trausti Þorsteinsson, dósent við Háskólann á Akureyri, sagði frá niðurstöðum nýrrar rannsóknar um faglega forystu og stjórnun í grunnskólum. Niðurstöður benda til að algengast sé að skólastjórar sinni sjálfir þáttum sem tengjast rekstri en líklegra er að þættir tengdir faglegri forystu séu á höndum annarra stjórnenda eða á forræði stjórnendateymis.

Dr. Rúnar Sigþórsson, prófessor við kennaradeild HA, flutti erindi sem bar yfirskriftina Sýnd veiði eða gefin? Rúnar ræddi um hæfnimiðaða námskrá, faglega ábyrgð og hver væri ávinningurinn fyrir nemendur. Meginniðurstaða Rúnars er að innleiðing nýrrar námskrár þurfi að byggjast á kennslufræðilegri sýn og þróun námsmenningar sem ristir dýpra en tæknilegar skipulagsbreytingar sem fyrst og fremst gára yfirborðið. Slík þróun þarf að byggjast á faglegri ábyrgðarskyldu á öllum stigum skólakerfisins og ytri stuðningi í samræmi við greiningu á þörfum skóla.  

Glærur frá meginfyrirlesurum á námstefnu og ársfundi eru komnar inn á vefinn undir dagskrá námstefnunnar. Upptaka á meginfyrirlestrum verður sett sem fyrst inn á vefinn. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þessi erindi og nýta við ykkar eigin starfsþróun jafnt sem kennara. 

Starfsánægja, stuðningur og streita
Sigríður Margrét Sigurðardóttir, lektor við Háskólann á Akureyri, fjallaði um stuðning við skólastjóra í starfi en erindi hennar var byggt á rannsókn meðal skólastjóra á leik- og grunnskólastigi um upplifun þeirra af stuðningi við sig í starfi og hvert þeir leita eftir stuðningi.                                            
Dr. Elín Díana Gunnarsdóttir, dósent við Háskólann á Akureyri, fjallaði streitu og starfsánægju. Í erindinu var fjallað um forvarnir og hvernig skólastjórnendur geta tekið á streitu sem einstaklingar og jafnframt hvernig þeir geta haft áhrif á samstarfsfólk og vinnustaðinn í heild sinni til að draga úr streitu og mögulegri kulnun í starfi. 
Ég hvet ykkur til að kynna ykkur þessi erindi og nýta við eigin starfsþróun jafnt sem kennara.

ESHA-ráðstefna evrópskra skólastjórnenda, sem haldin var í Maastricht um miðjan október, var vel sótt af félagsmönnum SÍ, FSL og FS og um 60 skólastjórnendur, af öllum skólastigum, voru frá Íslandi. Þema ráðstefnunnar var „International Inspiration in Education: Leadership Matters.“ Næsta ESHA-ráðstefna verður haldin í Tallinn í Eistlandi í október að ári. 
Frásagnir og greinar félagsmanna SÍ, sem sóttu námstefnuna, munu birtast á vefsíðu SÍ á næstunni. Á vefsíðu ESHA má finna ýmsar upplýsingar um Samtök evrópskra skólastjóra, áhugaverð fagleg efni og umræðu sem og fréttablað þeirra.

Afar áhugavert var að upplifa þann samhljóm sem var á flutningi meginfyrirlesara sem voru með erindi á námstefnu SÍ og ráðstefnu ESHA. Skóli framtíðar mun þurfa leggja meiri áherslu á samræðu um tilgang menntunar, samskipti og ábyrgðarskyldu skólastjórnenda og kennara til að stuðla að skólaþróun þar sem nám nemenda er í fyrirrúmi. Efla þarf til muna starfþróun skólastjórnenda og kennara, þar sem þessir aðilar vinna saman að því að byggja upp og þróa skólasamfélag sem lærir.
Með kveðju, Svanhildur
 

Fróðleg umræðuhefti um menntamál

Skólamálaráð KÍ hefur tekið saman áhugaverð umræðuhefti um menntamál sem kjörið er að taka til umræðu á kennarafundum um tiltekin málefni, í heftunum eru efni um málaflokkinn, spurningar og tillögur að umræðuefnum. Efnisflokkarnir eru læsi, starfsmenntun, námstími, kennsluhættir og námsmat, samstarf heimila og skóla og námsgögn og námsefni. 

Sem dæmi eru hér tvær spurningar úr læsisheftinu:
A) Hvernig mætti vinna að því að allir kennarar hafi góð tök á aðferðum sem skila árangri við eflingu læsis og ritunar og flétti þær inn í kennslu í öllum námsgreinum, og vinni m.a. með orðaforða, ritun, lesskilning og tjáningu?   

B) Hvers konar stuðning sjá kennarar fyrir sér að þeir þurfi að fá í sambandi við ofangreint? Hér má nálgast umræðuheftin.

Hverjar eru áherslur flokkanna í menntamálum?


Menntamálin hafa ekki verið mikið til umræðu í kosningabaráttunni að þessu sinni. Kennarasambandið sendi af þeim sökum nokkrar lykilspurningar til framboðanna. Spurt var um hvernig leysa eigi brýna nýliðunarþörf í kennarastétt, hvernig best verði unnið að menntun án aðgreiningar, að skóla fyrir alla og hvernig auka megi velferð barna og ungmenna í okkar samfélagi. Svörin eru á vef KÍ. SKÓLASTJÓRAFÉLAG ÍSLANDS

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
www.ki.is / ki@ki.is

© 2016 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Ábyrgðarmaður: Svanhildur María Ólafsdóttir, svanhildur@ki.is


Þú ert skráð/ur á póstlista KÍ
Uppfæra skráningu eða Afskrá mig af póstlista