Copy
1. tbl. 2017
Heilir og sælir ágætu félagsmenn!
Stjórn og samninganefnd SÍ hafa fundað vegna hugmyndar Sambandsins (SNS) sem barst viðræðunefnd á síðasta fundi SÍ og SNS þann 20. janúar síðastliðinn. Hugmynd SNS er að mati stjórnar og samninganefndar óásættanleg fyrir stærstan hluta félagsmanna. Niðurstaða stjórnar og samninganefndar er að fulltrúar SÍ haldi áfram viðræðum við SNS. Tekið skal fram að samningar SÍ eru lausir í mars 2019 og því ekki um eiginlegar samningaviðræður að ræða. Félag stjórnenda leikskóla er í sömu stöðu og SÍ og því höfum við óskað eftir sameiginlegum fundi SÍ og FSL með samninganefnd Sambandsins. Fundurinn er fyrirhugaður 8. febrúar.

Vil vekja athygli ykkar á þremur nýjum greinum í Greinarkorni SÍ frá skólastjórum norðan heiða. Ólafur Arngrímsson, skólastjóri Stórutjarnaskóla, skrifar um áreiti frá aðilum utan skólakerfisins, Hrund Hlöðversdóttir, skólastjóri Hrafnagilsskóla, skrifar um málstofu Zachary Walker, og Inga Sigrún Atladóttir, skólastjóri Álfaborgar/Valsárskóla, veltir fyrir sér hvernig við búum nemendur undir líf í framtíðinni. 
Með kveðju, Svanhildur

Samræmdur vitnisburður
við lok grunnskóla

Hvernig tókst til og hvað má betur fara?


Skólastjórnendur grunnskóla og framhaldsskóla efna til umræðufundar um samræmdan vitnisburð við grunnskóla vorið 2016. Fundurinn verður haldinn mánudaginn 20. febrúar, frá klukkan 14 til 17, í Hvammi á Grand hóteli. Fundurinn er ætlaður skólastjórnendum í grunn- og framhaldsskólum. 

Á fundinum verður rætt hvernig hafi tekist til síðastliðið vor og hvað megi betur fara. Erindi flytja Brynhildur Sigurðardóttir, skólastjóri í Garðaskóla, og Bendikt Barðason, aðstoðarskólameistari við Verkmenntaskólann á Akureyri og auk þess mun fulltrúi Menntamálastofnunar flytja tölu þar sem hann fjallar um hvernig samræmd próf kallast á við nýtt námsmat. 

Að loknum erindum verða umræður í hópum sem síðan verða teknar saman. Frekari dagskrá verður send út þegar nær dregur. 
 
Við hvetjum ykkur til að skoða framboð námskeiða sem eru ætluð stjórnendum og millistjórnendum á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands

Takið þessa daga frá!

13. og 14. október 2017

Hin árlega námstefna og aðalfundur Skólastjórafélagsins verður að þessu sinni haldinn í Reykjavík, á Grand hóteli.

Undirbúningur er hafinn og verður dagskrá og efni námstefnu kynnt um leið og það liggur fyrir. Skólastjórnendur eru hvattir til að taka dagana tvo frá. 

 

Fræðimaðurinn Zachary Walker verður aðalfyrirlesari á Skólamálaþingi 5. og 6. október 2017
Skólamálaþing KÍ og Skólameistarafélagsins á Alþjóðadegi kennara.

Kennarasamband Íslands og Skólameistarafélag Íslands efna til sameiginlegs skólamálaþings 5.-6. október 2017 fyrir kennara og skólastjórnendur á öllum skólastigum og –gerðum.  

Gert er ráð fyrir að meginfyrirlestur verði fimmtudaginn 5. október kl. 14:30 – 16:30. Föstudaginn 6. október verður boðið upp á vinnustofur. Meginfyrirlesari og stjórnandi vinnustofa verður dr. Zachary Walker sem er kennari, fræðimaður og höfundur kennsluefnis. Walker var einn af meginfyrirlesurum á ESHA-ráðstefnunni í október 2016. Þar ræddi hann um hugmyndafræðina skóli fyrir alla og hvernig kennarar, skólastjórnendur og foreldrar geta unnið að því að undirbúa og mennta nemendur til framtíðar.

Zachary ræddi um mikilvægi þess að þekkja og virða hverja kynslóð námsmanna. 
  • Hver eru þau? 
  • Hvað eru þau að gera? 
  • Hvernig eru þau ólík fyrri kynslóðum námsmanna?  
  • Hvað gerir þau einstök á sinn hátt? 
  • Hvaða áhrif hafa þau á þig sem kennara?  
Hann ræddi líka um að í ljósi tæknibyltingar væri auðvelt að villast í nýrri tækni, tækjum og möguleikum þeirra. Mikilvægt er að huga að kennslufræði og samskiptum  og hvernig kennarar og stjórnendur nýta þá þætti til að kenna, leiða, ná til, móta og undirbúa nemendur sína.  Hvernig hefur kennslufræðin breyst og hvernig ekki, er hún sú sama og áður?  
Til að skilja tækni og kennslufræði þurfum við fyrst að skilja nemendur okkar og þarfir þeirra.

Athugið, hann á ekki síður erindi við kennara. Skólastjórnendur eru hvattir til að taka þessa daga frá. 
 

Samræmd próf

Skólamálanefndir Skólastjórafélags Íslands og Félags grunnskólakennara hafa farið yfir drög að reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskóla dagsett 19. desember 2016. Miðað við fyrri reglugerð frá 3. apríl 2009 bera drögin með sér að stefnt sé að meiri miðstýringu menntayfirvalda á starfi grunnskóla. 

Það er mat skólamálanefnda SÍ og FG að sú tilhneiging vinni gegn einu af viðmiðum gildandi grunnskólalaga sem m.a. komu fram í greinargerð með frumvarpinu, að í lögunum væri lögð áhersla á að undirstrika og styrkja sjálfstæði skóla og áherslu á sveigjanleika í starfsháttum skóla og einstaklingsmiðun náms. (Lög um grunnskóla 91/2008 og greinargerð bls. 18 –19 og 21). 

Hvað varðar fyrirspurnir vegna framkvæmdar og fyrirlagnar samræmdra prófa og málefnum þeim tengdum, svo sem lesferlisathugana eru skólastjórar hvattir til að senda tölvupósta beint til Menntamálastofnunar með spurningum, athugasemdum og ábendingum sem þeir vilja koma á framfæri. Menntamálastofnun hefur komið upp sérstöku netfangi um málefnið, irp@mms.is

Hægt er að setja afrit af tölvupóstinum til Gylfa Jóns Gylfasonar, sviðstjóra matsviðs (gylfi.j.gylfason@mms.is) og Arnórs Guðmundssonar, forstjóra stofnunarinnar (arnor.gudmundsson@mms.is).  
Vinsamlegast sendið afrit af póstunum til Svanhildar (svanhildur@ki.is) og Ingileifar (ingileif@thelamork.is) svo hægt sé að fylgja þeim eftir en Ingileif er fulltrú SÍ í ráðgjafanefnd um samræmd próf.SKÓLASTJÓRAFÉLAG ÍSLANDS

Laufásvegi 81, 101 Reykjavík
Sími 595 1111
www.ki.is / ki@ki.is

© 2017 Kennarasamband Íslands. Allur réttur áskilinn.
Ábyrgðarmaður: Svanhildur María Ólafsdóttir, svanhildur@ki.is


Þú ert skráð/ur á póstlista KÍ
Uppfæra skráningu eða Afskrá mig af póstlista